Basko ehf., rekstrarfélag 10-11 og áður Iceland og Dunkin Donuts, tapaði 246 milljónum króna á síðasta reikningsári sem nær frá 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019. Félagið tapaði milljarði króna á fyrra rekstrarári. Basko átti við alvarlega rekstrarerfiðleika að etja samkvæmt samrunaskrá þegar Skeljungur keypti félagið í haust, til að tryggja rekstur Kvikk, verslana við bensínstöðvar Skeljungs.

Tap Basko dróst saman um 785 milljónir frá fyrra ári en það skýrist þó að mestu af því að á síðasta ári var bókfærður kostnaður vegna endurskipulagningar upp á 896 milljónir króna en sá liður nam 33 milljónum á síðasta rekstrarári.

Vörusala félagsins nam 9.582 milljónum króna og dróst saman um 194 milljónir á milli ára. Framlegð þess jókst hins vegar um 64 milljónir og nam rúmlega 3,2 milljörðum. Launakostnaður nam 2.280 milljónum á síðasta ári og dróst saman um 65 milljónir og þá lækkuðu laun sem hlutfall af framlegð úr 74,5% í 71%. Á sama tíma fór fjöldi heilsársstarfa úr 338 í 367 og fjölgaði þeim því um 29.

EBITDA á rekstrarárinu nam 44 milljónum króna og jókst um 193 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) var neikvæður um 137 milljónir en batnaði þó um 197 milljónir milli ára. Í lok rekstrarársins námu eignir Basko tæplega 2,3 milljörðum en þær lækkuðu um tæplega 600 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall var 11,2% í lok febrúar og lækkaði um 6,2 prósentustig á milli ára.

Alvarlegir rekstrarerfiðleikar

Óhætt er að segja að töluvert hafi gengið á hjá Basko á síðustu misserum. Eins og áður segir nam tap félagsins ríflega einum milljarði króna á rekstrarárinu 2017/2018 en stór hluti tapsins kom til vegna kostnaðar af endurskipulagningu. Sú endurskipulagning fólst meðal annars í því að öllum Dunkin Donuts kaffihúsum var lokað í lok árs 2018 en þau höfðu verið rekin í dótturfélaginu Drangasker.

Rekstur Drangskers hefur bitið Basko fast en félagið hefur aldrei skilað hagnaði en samanlagt tap þess frá mars 2015 til loka febrúar á þessu ári nemur samtals 572 milljónum króna. Þá nam kostnaður vegna endurskipulagningar 407 milljónum á reikningsárinu sem lauk í febrúar og stóð sú upphæð því undir tæplega helmingi af heildarupphæðinni í reikningi Basko.

Í júní á síðasta ári seldi Basko svo 12 verslanir til Samkaupa en kaupin voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í nóvember. SKE hafnaði hins vegar sölu á Iceland verslunum í Keflavík og á Akureyri í maí á þessu ári. Ekki kemur nákvæmlega fram í ársreikningi Basko hvert söluverðið var en í sjóðsstreymisyfirliti kemur fram að söluverð varanlegra rekstrarfjármuna hafi numið 1.245 milljónum króna.

Um miðjan september á þessu ári var svo greint frá því að Skeljungur hefði fest kaup á öllu hlutafé í Basko fyrir 30 milljónir króna auk yfirtöku á 300 milljóna skuldum. Þess ber að geta að 50% hlutur Basko í Eldum Rétt var ekki hluti af kaupunum. Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu frá banni við samruna og heimilaði strax samstarf félaganna þegar greint var frá kaupunum í september. Í ákvörðun SKE frá því í lok nóvember um kaupin kom svo fram í samrunaskrá að Basko ætti í verulegum og alvarlegum rekstrarerfiðleikum. Skeljungur hafi því fest kaup á félaginu til að tryggja hagsmuni sína varðandi rekstur Kvikk verslana sem reknar eru við bensínstöðvar Skeljungs.

Nánar er fjallað um málið Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .