*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 16. janúar 2019 09:55

Basko tapaði milljarði

Eignarhaldsfélagið Basko, sem rekið hefur 10-11 og Iceland, tapaði rúmum milljarði á síðasta rekstrarári.

Ritstjórn
Verslun 10-11 við austurstræti.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eignarhaldsfélagið Basko, sem rekið hefur verslunarkeðjurnar 10-11 og Iceland, tapaði rétt rúmum milljarði króna á síðasta rekstrarári, sem lauk í lok febrúar í fyrra, samanborið við 53 milljóna króna tap árið áður. Tapið skýrist að mestu af 896 milljóna króna gjaldfærðum kostnaði vegna endurskipulagningar.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var þó einnig neikvæð um 149 milljónir, samanborið við 309 milljóna króna hagnað árið áður.

Í ársreikningi félagsins segir að samstæðan hafi gengið í gegnum „mikið umbreytingarferli á rekstrarárinu. Nokkrum verslunum var lokað, öðrum breytt úr 10-11 yfir í Iceland ásamt því að tekin var ákvörðun um að hætta starfsemi Dunkin Donuts.“

Þá hafi einnig verið ákveðið að flytja höfuðstöðvar félagsins, loka vöruhúsi og gera skipulagsbreytingar á starfseminni.

Eins og fram hefur komið seldi Basko Samkaupum 12 verslanir á síðasta ári: allar 7 verslanir Iceland og 5 verslanir 10-11 í miðbæ Reykjavíkur.

Heildartekjur félagsins námu 9,8 milljörðum, og drógust lítillega saman, um 2,6%, milli ára. Rekstrarkostnaður jókst hinsvegar um 6,3%, sem skýrir neikvæðan viðsnúning EBITDA milli ára.

Eigið fé félagsins lækkaði um fjórðung milli ára og nam rétt um hálfum milljarði í lok uppgjörstímabilsins, og eiginfjárhlutfall var þá 17,4%.

Greidd laun námu um 2 milljörðum og jukust um 5,5% milli ára, og ársverk voru 338 og fjölgaði um tæp 15%.

Stærsti hluthafi Basko er sjóðurinn Horn III, sem er í stýringu Landsbréfa, með rúman 80% hlut.

Stikkorð: Iceland 10-11 Basko