Í ársreikningum Hveragerðisbæjar kemur fram að tekjur samstæðu af útsvari og fasteignaskatti voru 412,7 mkr., framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 147,1 mkr. og aðrar tekjur voru 179,7 mkr. Rekstrartekjur samtals voru því nálægt 740 mkr. Laun og launatengd gjöld voru 371,1 mkr., breyting lífeyrissjóðsskuldbindingar voru 22,2 mkr og annar rekstrarkostnaður var 342,9 mkr. Afskriftir voru 52,1 mkr. Rekstrargjöld og afskriftir fyrir fjármagnsliði voru því samtals 788 mkr.

Fjármagnsgjöld voru 89,9 mkr. Úr efnahagsreikningi koma m.a. fram eftirfarandi stærðir: Fastafjármunir eru rúmir 1,2 milljarðar, eigið fé er 245 mkr. og langtímaskuldir 796 mkr.

Fjárhagsstaða Hveragerðisbæjar hefur verið þung undanfarin ár vegna mikilla framkvæmda og fjárfestinga á vegum bæjarfélagsins, en í ársreikningi síðasta árs má sjá ýmis merki þess að fjármál bæjarins séu að þróast rétta í átt þrátt fyrir að aðhaldsaðgerðir sem gripið var til á síðasta ári skili sér ekki að fullu fyrr en á yfirstandandi rekstrarári segir í frétt frá bænum.

Batamerkin sjást glögglega á viðsnúningi á handbæru fé frá rekstri samstæðu upp á kr. 78 milljónir á milli ára en þessi tala er að mati endurskoðanda bæjarins lykiltala þar sem hún sýnir þá peningamyndun sem verður hjá bæjarsjóði og stofnunum bæjarins. Heildarskuldir án lífeyrissjóðsskuldbindinga bæjarins nema kr. 513 þúsund á hvern íbúa í árslok 2004 sem er lækkun um kr. 78 þús frá árinu áður. Ef óinnheimtar kröfur bæjarins eru dregnar frá heildarskuldum eru skuldir á hvern íbúa kr. 359 þúsund. Veltufjárhlutfall samstæðu batnar mikið og fer úr 1,01 í 1,29. Meðaltals veltufjárhlutfall sveitarfélaga á Íslandi sem eðlilegt er að miða sig við var 1,01 árið 2003. Þá nýtur áhrifa af sölu Hitaveitu einnig í ársreikningnum, en helmingur af söluverði hennar fékkst greiddur til bæjarins á árinu 2004 og var hann notaður til að greiða niður skuldir. Fjórðungur af söluandvirðinu verður greiddur árið 2005 og fjórðungur árið 2006.

Árið 2005 eru í fyrsta sinn í mörg ár ekki eru tekin ný langtímalán af Hveragerðisbæ og þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins gerir heldur ekki ráð fyrir slíkri lántöku. Hinsvegar er gert ráð fyrir áframhaldandi tekjuaukningu bæjarins á næstu árum til þess að skapa svigrúm til að greiða niður langtímalán og standa undir framkvæmdum.