Hagnaður varð af reglulegri starfsemi álrisans Alcoa á öðrum ársfjórðungi 2010 sem nam 136 milljónum dollara samanborðið 194 milljóna dollara taps á fyrsta ársfjórðungi. Á fyrri helmingi ársins í heild varð þó tap á reglulegri starfsemi sem nam 57 milljónum dollara og nettótap á rekstrinum í heild nam 65 milljónum dollara.

Er þetta töluverður viðsnúningur frá öðrum ársfjórðungi 2009 þegar félagið tapaði 454 milljónum dollara að teknu tilliti til kostnaðar vegna endurbóta.

Veltan á öðrum ársfjórðungi nam 5,2 milljörðum dollara sem er 6% aukning frá fyrsta ársfjórðungi. Er þetta jafnframt 22% aukning frá öðrum ársfjórðungi 2009 þegar veltan var 4,2 milljarðar dollara. Er árangurinn nú skýrður með 4% aukningu í framleiðslu vegna bættrar tækni. Einnig með lægri orkukostnaði, hagstæðum gengismun og hærra álverði sem hafi verið að meðaltali um 2.309 dollarar á tonnið á tímabilinu.

„Við bætum okkar hagnað og veltu og höldum okkar sterku lausafjárstöðu,” sagði Klaus Kleinfeld forstjóri Alcoa við kynningu á reikningum félagsins. „Vegna aukinnar eftirspurnar á notendamarkaði erum við að auka framleiðslu okkar á áli úr 10% í 12% á þessu ári.”