Hagnaður eignarhaldsfélaga á síðasta ári nam að meðaltali um 5,2 milljónum króna, samkvæmt þeim ársreikningum sem hefur verið skilað til ársreikningaskrár. Er það töluvert betri afkoma en á árinu áður, þegar tap nam að jafnaði um 88 milljónum. Þetta má sjá á vefsíðu CreditInfo. Þar er hægt að rýna í samanburð fyrirtækis við atvinnugreinina í heild.

Alls er 2871 eignarhaldsfélag skráð. Ekki er aðgengilegur slíkur samanburður við árið 2007. Þó er hægt að sjá að eiginfjárhlutfall eignarhaldsfélaga hefur versnað mikið frá þeim tíma. Á árinu 2007 var eiginfjárhlutfall að meðaltali um 40%. Í fyrra var það 15,24% og 17,6% á árinu 2009. Hlutfall skulda á móti eignum hefur batnað frá árinu 2009. Þá var það 82% en var í fyrra um 66,5%. Á árinu 2007 var þetta hlutfall um 60%.

Eignir slíkra félaga fara að meðaltali lækkandi milli áranna 2010 og 2009, miðað við þau fyrirtæki sem skilað hafa fyrir þetta ár. Fastafjármunir lækka um 100 milljónir og nema um 1,1 milljarði króna í lok árs 2010. Samhliða bættri rekstrarniðurstöðu á síðasta ári jókst hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir, EBITDA-hagnaður. Hann var 473,6 milljónir í fyrra samanborið við einungis tæplega 10 milljónir á árinu 2009.