Efnahagsleg endurreisn Íslands er vel á veg komin aðeins átta árum eftir fordæmalaust bankahrun. Hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi var 10,2% og er landsframleiðslan meiri en hún var fyrir hrun. Vöxtur einkaneyslu er áþekkur fyrri uppsveiflu og eigið fé heimila og fyrirtækja fer vaxandi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aldrei verið hærri og atvinnuleysi fer minnkandi. Ferðaþjónustan er orðin stærsta greinin í auknum og fjölbreyttari útflutningi, afgangur er á viðskiptajöfnuði og erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri. Nauðasamningar við kröfuhafa föllnu bankanna hafa verið staðfestir, aflandskrónufjármagn hefur verið losað eða girt af, lífeyrissjóðir hafa fengið heimildir til fjárfestinga erlendis og höft voru losuð að hluta á einstaklinga og fyrirtæki.

Ísland er á sjötta ári samfellds hagvaxtar og greiningaraðilar sjá aukna þenslu í kortunum. Gangi hagspár eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið áratugur í hið minnsta og eitt það lengsta á lýðveldistímanum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnti stöðuna og horfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum á dögunum. Samhliða efnahagsbatanum hefur hagur ríkisfjármála vænkast. Skuldir hins opinbera hafa lækkað frá árinu 2013. Heildarafkoma ríkissjóðs er nú jákvæð í fyrsta skipti frá bankahruni og stefnir í sögulegan (bókhaldslegan) metafgang hjá ríkissjóði. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru á niðurleið og hrein staða fer batnandi. Til marks um umskiptin í stöðu ríkisfjármála og framganginn í endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins hefur lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækkað af jaðri við ruslflokk yfir í A-flokk með stöðugum horfum.

Endurreisn ríkisfjármála

Á árunum 2004 til 2007 var hagvöxtur að meðaltali 7% og staða ríkisfjármála sterk. Heildarafgangur ríkissjóðs árin 2005 til 2007 var 280 milljarðar en einnig var afkoma sveitarfélaga jákvæð. Frumtekjur ríkissjóðs voru 32% af VLF en frumgjöld um fjórðungur. Brúttóskuldir voru 311 milljarðar árið 2007, nettó skuldir 4% af VLF og bæði nettó fjárhagsleg staða og vaxtajöfnuður jákvæð.

Þó voru ýmsir annmarkar í stöðu ríkissjóðs. Stór hluti af tekjum ríkissjóðs byggði á ofvöxnu bankakerfi, skuldsettum eignarhaldsfélögum, miklum viðskiptahalla og hagkerfi sem var útatað í eignabólum. Tekjuöflun ríkissjóðs var þar að auki veikburða vegna skattalækkana og krónutöluskattar og gjöld hækkuðu ekki í takt við verðbólgu.

Þegar bankahrunið skall á haustið 2008 þurrkuðust verðbréfamarkaðir í landinu nánast út og gjaldeyriskreppu var afstýrt með gjaldeyrishöftum. Hruni bankakerfisins var mætt með mikilli skuldsetningu og útgjaldaauka í formi vaxtagjalda og atvinnuleysisbóta.

Sem hlutfall af VLF jukust útgjöld hins opinbera um 36,1% árið 2008 á meðan tekjutap var talsvert, sem skilaði neikvæðri afkomu upp á 13% af VLF. Afkoman var neikvæð næstu sjö árin. Brúttóskuldir fóru úr 311 milljörðum í rúmlega 931 milljarð árið 2008, en hæst fóru skuldirnar í rúma 1.500 milljarða árið 2012. Skuldir hins opinbera sem hlutfall af VLF fóru úr 18,1% árið 2007 í tæplega 68% árið 2010. Vaxtagjöld voru 84 milljarðar árið 2009 en voru 22 milljarðar árið 2007.

Ríkissjóður axlaði alls um 1.000 milljarða króna skuld vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands og viðskiptabankanna, láns vegna gjaldeyrisforðans og uppsafnaðs greiðsluhalla fram til 2012.

Eftir efnahagslegan uppgang, niðurskurð í útgjöldum, breytingar á skattkerfinu og endurheimtur ríkissjóðs af falli bankanna blasir önnur mynd við. Áætlað er að brúttó skuldir ríkissjóðs hafi lækkað í rúmlega 777 milljarða og að skuldir hins opinbera standi í 928 eða 39,5% af VLF.

Einnig er áætlað að afkoma hins opinbera verði jákvæð í ár – bæði með og án óreglulegra liða – í fyrsta skipti frá bankahruni. Samkvæmt fjármála- og efnahagsráðuneytinu verður heildarafkoma ríkissjóðs án stöðugleikaframlaga 30,1 milljarður í ár en 409,4 milljarðar að stöðugleikaframlögunum meðtöldum, sem verður metafgangur og jafngildir um 17% af VLF. Hreinn ábati ríkissjóðs af endurheimtum af falli bankanna nemur 2,6% af VLF.

Fimm ára skuldatryggingarálag ríkissjóðs hefur lækkað talsvert og bara á þessu ári hækkaði lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um tvö þrep, úr Baa2 í A3, en svo mikil hækkun er sjaldgæf. Bætt lánshæfismat bætir vaxtakjör ríkissjóðs, sem aftur bætir afkomu ríkissjóðs.

Á meðan heildarskuldir hins opinbera eru í meðallagi hér á landi í samanburði við ESB ríki er vaxtakostnaður hér hærri en í nokkru öðru ESB ríki. Vaxtagjöld ríkissjóðs jukust úr 63,3 milljörðum árið 2011 í 89,2 árið 2015, en með lækkandi skuldum stefnir í að vaxtagjöldin verði 76,3 milljarðar í ár. Lækkun skulda á árinu hefur verið mætt með tekjum af sölu eigna, tekjum vegna stöðugleikaframlaga, lækkun sjóðsstöðu í Seðlabanka Íslands og bættri afkomu ríkissjóðs.

Vaxtagjöld eru í kringum 5% af VLF og það verður brýnt verkefni stjórnvalda næstu ár að skila meiri afgangi á frumjöfnuði ríkissjóðs en hjá nokkru ESB ríki, og draga þannig enn frekar úr skulda- og vaxtabyrðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .