Már Guðmundsson seðlabankastjóri batt vonir við það snemma í september árið 2010 að Heiðar Már Guðjónsson gæti leitt hóp fjárfesta í kaupum á stórum hlut í Sjóvá og myndi hann á endanum setjast í forstjórastólinn. Framkoma og viðmót lögmanna hans á fundi þar sem rætt var um söluna urðu hins vegar til þess að gera draga úr þessum vonum seðlabankastjórans. Á endanum fór svo að kaupendahópurinn sagði sig frá söluferlinu.

Svo skrifar Már í aðsendri grein í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í greininni segir hann frá því eins og áður hefur verið bent á að mál félags Heiðars Más hafi á þessum tíma verið enn til meðferðar hjá gjaldeyriseftirlitinu og væri salan á Sjóvá háð niðurstöðu þess. Hann neitar því hins vegar að hann hafi hótað að senda mál Heiðars til lögreglu enda hafi hann ekki vald til þess.

Um það leyti sem söluferlið steytti á skeri var því haldið fram að Már hefði ekki viljað sjá Heiðar í fjárfestahópnum og hann ekki treyst sér til þess að ganga frá samningum þar sem mál félags Heiðars Más væri til rannsóknar. Málið sneri að aflandskrónuviðskiptum í tengslum við skuldabréfaútgáfu félagsins Ursus ehf. Viðskiptablaðið greindi frá því á sínum tíma að skuldabréfaútgáfan hljóðaði upp á 490 milljónir króna.

Már Guðmundsson skrifar:

„Það er [...] alrangt að ég hafi „hótað að senda mál Heiðars Más til lögreglu“ á fundi sem Heiðar Már mætti á í Seðlabankanum ásamt lögmönnum sínum. Ég benti einfaldlega á í yfirferð um kostina í stöðunni að málið gæti endað þannig að það yrði kært til lögreglu og því ekki hægt að ganga frá sölunni fyrr en það skýrðist. Auk þess er það svo að ég get ekki bara einfaldlega „sent mál til lögreglu“. Á þessum tíma var málið enn til meðferðar hjá gjaldeyriseftirlitinu og það háð niðurstöðu þeirrar meðferðar hvað um það yrði. Ég var á þessum tíma að leita leiða til að bjarga sölunni en framkoma og viðmót lögmanna Heiðars Más á umræddum fundi gerðu mig vondaufari um það en áður, enda fór það svo að kaupendahópurinn sagði sig frá söluferlinu áður en niðurstaða Seðlabankans lá fyrir í málinu, og þar með áður en afstaða Fjármálaeftirlitsins um hæfi hópsins lá fyrir. Þessi niðurstaða málsins voru mér mikil vonbrigði enda hafði mikil vinna farið í það af minni og annarra hálfu að selja Sjóvá í þessari lotu og snemma í september 2010 taldi ég enn að Heiðar Már yrði orðinn forstjóri Sjóvár áður en veturinn væri liðinn.“

Grein Más má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.