Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf ekki upp í dag hvort hann hygðist gefa kost á sér áfram í embætti forseta. Honum voru afhentar í dag undirskriftir rúmlega 30 þúsund einstaklinga sem skoruðu á hann að gefa kost á sér áfram.

Ólafur Ragnar sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum fyrir stundu að hann hefði tekið skýrt fram í áramótaávarpi sínu þann 1. janúar sl. að hann hygðist hverfa til annarra starfa. Hann sagði þó í dag að hann myndi íhuga þessa áskorun en bauð um leið aðstandendum undirskriftarsöfnunarinnar í kaffisamsæti.

Guðni Ágústsson, fyrrv. ráðherra og fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði fjölmiðla og afhenti Ólafi Ragnari undirskrift 30.287 Íslendinga sem skoruðu rafrænt á forsetann að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í sumar. Sem kunnugt er fara fram forsetakosningar í sumar og hvatti Guðni hann eindregið til að gefa kost á sér áfram.

Guðni vakti sérstaklega athygli á framgöngu Ólafs Ragnars gagnvart Bretum eftir að þeir síðarnefndu beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi haustið 2008. Þá bar Guðni mikið lof á Ólaf Ragnar fyrir framgöngu hans í Icesave málinu, þar sem Ólafur Ragnar vísaði frumvarpinu tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem kunnugt er hafnaði þjóðin hinum svokölluðu Icesave frumvörpum í bæði skiptin sem þeim var vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú setið sem forseti í tæp 16 ár en hann var kjörinn forseti sumarið 1996. Við upphaf síðasta kjörtímabils, sumarið 2008, var Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.