Fréttablaðið birti ákærur í Baugsmálinu í laugardagsblaði sínu og Morgunblaðið hefur einnig birt ákærurnar í sunnudagsblaði sínu. Áður höfðu ákærurnar birst að hluta til í enska dagblaðinu The Guardian.

Í átta síðna aukablaði Fréttablaðsins um málið er rætt við þá feðga Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Kemur fram í blaðinu að þeir lásu yfir viðtölin og segist blaðið þar bregða út af vinnureglum sínum.

Of margar tilviljanir

?Það eru allt of margar tilviljanir í þessu máli til að þær fái staðist. Í mínum huga er alveg klárt að þessu er stjórnað. Í hvert skipti sem við vorum í fréttum vegna þess sem við vorum að fást við, þá bárust fréttir af rannsókninni. Fyrst þeir ætluðu ekki að þingfesta málið fyrr en 17. ágúst, af hverju lá þeim þá svona mikið á að birta ákæruna? Það hafði verið í fréttum að áreiðanleikakönnun vegna Somerfield var að ljúka. Þeir vissu vel um það,? segir Jón Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið og bætir við.

?Andrúmið stjórnar dálítið. Það skapaðist 2001?2002 með gegndarlausum árásum þáverandi forsætisráðherra á fyrirtækið og hótunum hans um að brjóta upp félagið. Ráðherrann hótaði Hreini Loftssyni því að opinberir aðilar myndu herja á félagið. Jón Steinar tekur að sér málið fyrir Jón Gerald. Jón Steinar hringir í ríkislögreglustjóra. Hversu augljóst getur þetta verið??

- Og Jón Ásgeir fjallar sérstaklega um hlut Jóns Steinars í málinu: ?Jón Steinar fær flýtimeðferð án þess að skoða gögn málsins eins og frægt er. Menn þekkja hvernig það er að kæra til efnahagsbrotadeildar. Það er ekki eins og þar sé venjulega brugðist hratt við. Í þetta skiptið fengu þeir húsleitarheimild án þess að kanna einu sinni hvort reikningurinn sem var tilefni innrásarinnar væri debet eða kredit. Næði Baugur Arcadia var ljóst að félagið yrði orðið langstærsta fyrirtæki á Íslandi. Fyrirtæki sem hefði hagnast meira en allur íslenskur sjávarútvegur. Það er ljóst að mörgum stóð stuggur af því og einnig stóð mörgum stuggur af því að við vorum orðaðir við nýja útgáfu Fréttablaðsins. Jú, það var pólitík í þessu máli, það er klárt.?