Greiðslum Baugs group til Gaums, Gaums Holding, Eignarhaldsfélagsins ISP og Bague S.A. upp á rúma fimmtán milljarða króna var í dag rift með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þrotabú Baugs höfðaði málið. Félögin eiga svo að greiða þrotabúinu einar 59 milljónir króna í málskostnað.

Banque Havilland var hins vegar sýknaður af kröfu þrotabúsins um endurgreiðslu á ríflega 1,3 milljörðum króna.

Greiðslurnar skiptast þannig að Gaumur þarf að endurgreiða 7,2 milljarða, Gaumur Holding 5,2 milljarða, Eignarhaldsfélagið ISP 1,3 milljarða og Bague S.A. 1,3 milljarða króna.

Eftir að Baugur Group seldi Haga til 1998 ehf. sumarið 2008 var ákveðið að Baugur myndi kaupa hlutabréf áðurnefndra fjögurra félaga í Baugi fyrir alls fimmtán milljarða króna. Félögin voru í eigu stjórnarmanna Baugs. Gaumur og Gaumur Holding voru í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, ISP eignarhaldsfélag var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og Bague S.A. í eigu Hreins Loftssonar.

Félögin voru öll dæmd til að endurgreiða þessar fjárhæðir til Baugs. Gísli Guðni Hall, lögmaður félaganna fjögurra hefur sagt að greiðslan muni ganga af félögunum dauðum. Er því alls óvíst að féð fáist greitt.