Í kjölfar þess að Stoðir keyptu kjölfestuhlut í Baugi af Styrk Invest, sem er í meirihlutaeigu Gaums, eignarhaldsfélags Jóhannesar Jónssonar og fjölskyldu, fara Stoðir með tæplega 40% virkan eignarhlut í Baugi. Auk þess eiga Stoðir eignarhlut i b-hlutaflokki félagsins, sem ekki veitir atkvæðisrétt.

Ekki er tilgreint nákvæmlega hvað þessi b-flokkur er stór, en samkvæmt Júlíusi Þorfinnssyni, upplýsingafulltrúa Stoða, voru viðskiptin gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og áreiðanleikakönnunar og verður ekki upplýst um þá fyrr en að því ferli loknu. Hlutdeild b-bréfanna skiptir kannski ekki miklu máli því þótt Stoðir fari með meirihluta í félaginu þegar viðskiptin verða frágengin mun Baugsfjölskyldan engu að síður fara með völdin í krafti tvískiptingar hlutanna.

Sjaldgæft á Íslandi

Tvískipting hlutabréfa í a- og b-flokka er sjaldgæft fyrirkomulag á Íslandi. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir engin b-bréf skráð á aðallista Kauphallarinnar. „Einhver fyrirtæki sem eru skráð á First North hafa heimild til að gefa út slík hlutabréf, en sú heimild hefur ekki verið nýtt,“ segir Þórður.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .