Baugur Group hefur orðið fyrir óhjákvæmilegri röskun á starfsemi sinni vegan Baugsmálsins, segir í tilkynningu frá félaginu. Einnig tekur félagið fram í tilkynningunni að Baugur Group sé ?þolandi hinna meintu brota." Núverandi og fyrrverandi stjórnendur félagsins eru ákærðir fyrir meint auðgunabrot, og brot á skatta- og tollalögum, en ekki fyrirtækið sjálft.

Í tilkynningu Baugs segir að þrátt fyrir að málið hafi legið undir rannsókn í um þrjú ár hafi það fjárfest í 13 fyrirtækjum erlendis og nemur heildarverðmæti þeirra viðskipta um 30 milljörðum króna. Ef fjáfestingar félagsins á Íslandi eru taldar með nema heildarviðskipti Baugs á tímabilinu rúmum 50 milljörðum króna.

?Í samstarfi við stjórnendur, helstu fagfjárfesta og stóra alþjóðlega banka hefur Baugur átt þátt í yfirtökum á Hamleys, Big Food Group, Oasis, Goldsmith's, Julian Graves, Karen Millen, MK One, Rubicon, Jane Norman og Woodward í Bretlandi og á Magasin du Nord, Illum og Keops í Danmörku," segir í tilkynningu Baugs.


Enn fremur segir í tilkynningunni: ?Stjórn Baugs Group hefur leitað eftir álitsgerðum óháðra aðila, lögfræðinga, endurskoðenda og annarra rannsóknaraðila, til að skýra þau atvik sem leiddu til ákærunnar. Meðal niðurstaðna þessara rannsókna er að forstjóri félagsins átti á öllum stundum innstæðu hjá félaginu á móti úttektum hans. Í ljósi niðurstaðna þessara aðila ítrekar stjórn félagsins stuðning sinn við forstjóra félagsins og aðra sakborninga."

Talsmenn Baugs hafa ítrekað við Viðskiptablaðið að félagið mun halda áfram að leita eftir nýjum viðskiptatækifærum erlendis. "Baugur Group mun ekki víkja frá þeirri stefnu sinni að fjárfesta í framsæknum og þekktum fyrirtækjum," segir félagið í fréttatilkynningunni.