Settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, Sigurður Tómas Magnússon, hefur í dag lýst því yfir við verjendur fjögurra sakborninga að hann hafi tekið ákvörðun um að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars síðastliðinn til Hæstaréttar Íslands.

Eins og kunnugt er laut dómurinn að átta liðum þeirrar ákæru sem gefin var út þann 1. júlí 2005. Hæstiréttur vísaði 32 liðum ákærunnar frá dómi 10. október síðastliðinn.

Áfrýjunin beinist að fjórum ákæruliðum vegna skýringa með ársreikningi Baugs hf. og tveimur ákæruliðum vegna innflutnings á bifreiðum frá Bandaríkjunum.

Í tilefni þess hefur Jóhannes Jónsson sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Mínum þætti málsins er ekki áfrýjað. Sú niðurstaða hvílir augljóslega á þeirri staðreynd að kærandinn, Jón Gerald Sullenberger, dró fyrri ásakanir sínar á hendur mér til baka við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi. Með því að sleppa mér við áfrýjun er sérstakur ríkissaksóknari að viðurkenna í verki að ekki er unnt að byggja á framburði Jóns Geralds Sullenberger.

Er það í fullu samræmi við skýra niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um ótrúverðugleika hans. Lögfróðir menn segja mér að þeirri niðurstöðu verði ekki hnekkt í Hæstarétti. Eigi að síður er málinu áfrýjað til Hæstaréttar Íslands gagnvart börnum mínum, Jóni Ásgeiri og Kristínu.

Ákærur á hendur þeim varðandi bílainnflutning hvíla eingöngu á framburði Jóns Geralds Sullenberger. Ég er fullviss um sakleysi þeirra beggja í málinu. Tvískinnungur ákæruvaldsins í þessu efni er æpandi.

Varðandi þann hluta áfrýjunar málsins er lýtur að ársreikningum félagsins er athyglisvert með hvaða hætti samkennarar Sigurðar Tómasar Magnússonar og Jóns H. B. Snorrasonar, fyrrum saksóknara í Baugsmálinu, í Háskólanum í Reykjavík hafa lagt honum lið við að réttlæta ákvörðun um áfrýjun. Þeir vilja leysa úr einhverri fræðilegri óvissu varðandi lög um ársreikninga. Lög kveða skýrt á um að aðeins eigi að áfrýja opinberu máli ef meiri líkur en minni eru til þess að sakfellt verði.

Efnislega hefur ekkert komið fram sem getur hnekkt afdráttarlausri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Sú óvissa sem samkennarar saksóknaranna þykjast sjá verður helst leyst af Alþingi og ætti sem slík aðeins að renna frekari stoðum undir sýknudóminn í Baugsmálinu.

Kennararnir í Háskólanum í Reykjavík viðurkenna að þeir hafi ekki kynnt sér ákæruliðina í málinu og sögðu að þeim fyndist lagaumhverfi hvað þessa liði varðar afar óskýrt. Samt hvöttu þeir til áfrýjunar málsins og hinn sérstaki saksóknari hefur hlýtt því kalli.

Því er svo við þetta að bæta að síðastliðinn föstudag hringdi Arnar Jensson frá embætti Ríkislögreglustjóra í verjanda minn, Einar Þór Sverrisson, til að boða mig sem sakborning í enn eina yfirheyrsluna m.a. vegna ásakana Jóns Geralds Sullenbergers. Að sögn Arnars var þetta gert að beiðni Sigurðar Tómasar Magnússonar.

Hinn nýi ríkissaksóknari ætlar mér það hlutskipti að sitja enn og aftur í yfirheyrslu hjá ríkislögreglustjóra með réttarstöðu grunaðs manns vegna ásakana frá Jóni Geraldi Sullenberger. Virðist þá engu skipta þó að sakborningar hafi margoft sýnt fram á haldleysi þessara ásakana og Jón Gerald Sullenberger hafi snúið frá upphaflegum ásökunum í minn garð varðandi bílainnflutninginn.

Ekki sýnist skipta máli fyrir hinn nýja saksóknara þótt Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í dómi sínum frá því í síðustu viku tekið skýrt fram að ,,vitnið" Jón Gerald Sullenberger væri ótrúverðugt og ekki væri hægt að byggja á framburði þess. Mér þykir með hreinum ólíkindum ef yfirvöld ætla að halda áfram að elta ólar við ásakanir manns, sem dómstóll hefur úrskurðað óhæfan sem vitni og sem haft hefur í hótunum við mig og fjölskyldu mína.

Frá því að rannsóknin hófst sumarið 2002 hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar orðið þess áskynja að starfsmenn Ríkislögreglustjóra hafa allt aðrar hvatir í þessu máli en að leiða hið rétta í ljós. Ég gæti nefnt mörg dæmi um þetta. Skemmst er að minnast frammistöðu Arnars Jenssonar í vitnastúku í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum þegar einn verjenda sýndi fram á að hann hefði haft rangt við í einum þætti rannsóknarinnar.

Ég ber ekkert traust til Arnars eða annarra þeirra manna sem farið hafa með rannsókn málsins. Þeir hljóta að átta sig á því sjálfir að ég hef engu við það að bæta sem ég hef þegar sagt þeim í fyrri yfirheyrslum. Tilgangur þeirra er sá einn að niðurlægja mig. Láta mig finna að þeir geti átt síðasta orðið þó að þeir hafi farið halloka í dómssölum til þessa. Ég mun mæta til yfirheyrslu hjá embætti Ríkislögreglustjóra á morgun kl. 10 vegna þess að mér ber lagaleg skylda til þess en aðeins til að gera þessum mönnum grein fyrir því að ég hef ekkert við þá að tala.

Einnig hef ég falið verjanda mínum að kvarta til Umboðsmanns Alþingis yfir embættisfærslu Jóns H. B. Snorrasonar saksóknara og Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Þeir fóru upphaflega fyrir málinu þegar ákærur voru gefnar út um mitt sumar 2005. Saksóknarinn segist hafa lokið afskiptum sínum af málinu þó að hann sé enn að senda út bréf vegna ,,rannsóknar" málsins út um allar trissur.

Ég tel eðlilegt að Umboðsmaður Alþingis kanni sérstaklega hvernig standi á því að ekki hafi verið talin ástæða til að gefa út ákæru á hendur Jóni Gerald Sullenberger á grundvelli hans eigin framburðar þegar sami grundvöllur var talinn tilefni til að gefa út ákærur á hendur mér og börnum mínum. Tel ég að kanna verði hvort þeir Jón H. B. Snorrason og Haraldur Johannessen hafi gerst brotlegir við jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.

Í landinu gilda lög og eftir þeim vil ég fara. Ég ætlast til hins sama af lögreglu og þeim sem fara með vald saksóknara í landinu."