Baugur stefnir á að hefja starfsemi í Bandaríkjunum árið 2008 og flytja þangað breska viðskiptamódel félagsins, sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Fyrirtækið hefur þegar náð fótfestu í Bandaríkjunum í gegnum í Mosiac-tískusamstæðuna. Jón Ásgeir segir að stefnt sé að því að fjölga Karen Millen-verslunum á næstunni í Bandaríkjunum. Undirfatavörumerki Oasis-verslunarkeðjunnar, sem nefnist Odille, er nú fáanlegt í gegnum póstverslanir bandarísku undirfataverslunarkeðjunnar Victoria Secret og í völdum verslunum fyrirtækisins, sem er í eigu bandaríska félagsins Limited Brands.

Jón Ásgeir segir Baugsmálið ekki hafa áhrif á tímsetningu útrásarinnar til Bandaríkjanna, en fyritækið er ekki þekkt þar líkt og í Bretlandi, og telur hann að málið muni ekki verða til þess að erfitt verði að finna samstarfsaðila og meðfjárfesta.

"Þetta hefur auðvitað erfitt persónulega. Málið hefur staðið yfir í fimm ár og það er ekki auðvelt að halda áfram að sama krafti. Hins vegar stóð það alltaf til að opna skrifstofu árið 2008," segir Jón Ásgeir.

Jón Ásgeir sagði einnig að félagið hefði áhuga að taka þátt í stærri verkefnum Bretlandi, en vildi ekki tjá sig frekar um hvaða fyrirtæki Baugur hefði áhuga á að bæta í eignasafn sitt.

Baugur hefur verið orðaður við bresku verslunarkeðjuna Marks & Spencer (M&S), en félagið fjárfesti í M&S ásamt FL Group og nam samanlagður gengishagnaður félaganna um 6,5 milljörðum króna þegar hluturinn var seldur fyrr á þessu ári.

"Marks & Spencer er dýrt. Stuart [Rose, forstjóri félagsins] hefur náð mjög góðum árangri með félagið og árangurinn nú er svipaður og við vorum að reikna með árið 2009," sagði Jón Ásgeir.

Hann telur það ólíklegt að breski auðkýfingurinn Philip Green, sem keypti Arcadia-verslunarfyrirtækið, muni reyna að kaupa félagið, en Green hefur gert tvær tilraunir til að yfirtaka M&S. Green gerði tilraun til að kaupa félagið fyrir rúmlega níu milljarða punda árið 2004, eða rúmlega 1.200 milljarða króna, og var gengi félagsins þá í kringum 360 pens á hlut. Gengið er nú í kringum 690 pens á hlut.

Baugur lauk formlega við 47 milljarða króna yfirtöku á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser í síðustu viku, ásamt fleiri fjárfestum, en fyrirtækið greiddi 351 milljón punda fyrir hlutafé House of Fraser. Heildarvirði yfirtökunnar nemur 75 milljörðum króna, ásamt skuldum. Baugur hefur fjárfest í fjölda fyrirtækja á breskum smásölumarkaði, en ólíkt fjárfestingasjóðum (e. private equity) hefur Baugur ekki losað fjárfestinar sínar með sama hraða. Jón Ásgeir segir Baug ekki lúta sömu lögmálum og fjárfestingsjóðir og fyrirtækið sjá frekar möguleika í því að leyfa fyrirtækjunum að vaxa og dafna, hugsanlega með öðrum yfirtökum. "Við þurfum ekki að selja eftir fyrirfram ákveðinn tíma en það þýðir þó ekki að við seljum aldrei eignir," segir Jón Ásgeir.

Fjármálasérfræðingar hafa velt því fyrir sér hvort að Booker-verslunarkeðjan væri fyrsta sala Baugs og tengdra aðila, en í gegnum Talden Holding hefur Pálmi Haraldsson einnig fjárfest í Booker. "Ef ég fengi mjög gott tilboð í Booker myndi ég hugsanlega vera tilbúinn selja," segir Jón Ásgeir.

Forstjóra Booker, Charles Wilson, hefur tekist að hægja verulega á tekjusamdrætti félagsins, en tekjur félagins minnkuðu um 2,5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður félagsins jókst um 59% í 21 milljón punda á tímabilinu og skuldir hafa verið lækkaðar í 70 milljónir punda úr 331 milljón punda við yfirtökuna á Big Food Group.