Sérfræðingar á breskum fjármálamarkaði reikna með því að Baugur þurfi að greiða 353 milljónir punda, eða rúmlega 46 milljarða króna ef félagið ætlar sér að taka yfir bresku stórvöruverslunarkeðjuna House of Fraser. Það samsvarar 150 pensum á hlut. Gengi hlutabréfa House of Fraser var 128,75 pens á hlut snemma í gærmorgun.

Baugur keypti nýverið 9,5% hlut í House of Fraser fyrir um 28 milljónir punda (3,7 milljarðar króna) og stuttu síðar greindi breska félagið frá því að þriðji aðili hefði lagt fram óformlegt kauptilboð. Hvorki Baugur né House of Fraser hafa tjáð sig um hver standi að baki tilboðinu, en flestir reikna með því að aðilinn sem um ræðir sé Baugur.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja Baug hafa haft samband við House of Fraser en benda á að það sé alls ekki víst að kauptiboð verði gert í félagið. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann. Bresku blöðin The Business og The Daily Mail fullyrða að Baugur eigi í viðræðum við House of Fraser.

Baugur átti 10,1% hlut í House of Fraser, sem félagið seldi árið 2004 og nam söluhagnaður félagsins rúmlega 1,3 milljörðum króna á þáverandi gengi. Kaupverð eignarhlutarins var í kringum tveir milljarðar á sínum tíma en fyrirtækið seldi hlutinn fyrir um 3,4 milljarða króna.

Breski fjárfestingasjóðurinn Apax átti í viðræðum við House of Fraser um að kaupa félagið og afskrá það fyrr á þessu ári. En Apax ákvað að hætta við yfirtökuna og gera ekki formlegt kauptilboð í verslunarkeðjuna. Ekki er talið að Apax hafi gert aðra tilraun til að kaupa House of Fraser.

Baugur hefur einnig verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni Woolworths, en félagið á um 10% hlut í félaginu, og tók nýlega þátt í kauptilboði skoska auðkýfingsins Tom Hunter í breska blómarisann Wyvale Garden Centres, sem hljóðar upp á 311 milljónir punda.