Í mars 2006 birtust 87 auglýsingar frá verslunum í eigu Baugs í Fréttablaðinu en aðeins 8 í Blaðinu og 6 í Morgunblaðinu. Alls voru auglýsingar frá fyrirtækjum í eigu Baugs um fjórðungur allra stórra auglýsinga í Fréttablaðinu og um fimmtungur í DV á þessum tíma.

Þetta kemur fram í rannsókn sem dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins, kennari í fjölmiðlafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hefur framkvæmt á sambandi auglýsinga og eignarhalds í íslenskum fjölmiðlum. Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á ráðstefnunni Þjóðarspeglinum í Lögbergi 102 við Háskóla Íslands í dag kl. 15.

Að sögn Guðbjargar var megintilgangur rannsóknarinnar að kanna hvort tengsl væru á milli eignarhalds á dagblöðum og auglýsinga sem í þeim birtust. Með hliðsjón af umræðu í samfélaginu var sjónum sérstaklega beint að Fréttablaðinu og auglýsingum verslana innan samsteypu Baugs.

Að sögn Guðbjargar benda niðurstöður þessarar rannsóknar eindregið til að Fréttablaðið fái drjúgan hluta af auglýsingatekjum sínum frá öðrum fyrirtækjum í eigu Baugs -- að peningarnir fari úr einum vasa í annan. Fjórðungur stórra auglýsinga í Fréttablaðinu var frá verslunum í eigu Baugs eða fyrirtækjum innan Dagsbrúnar.

"Baugur slær tvær flugur í einu höggi, þ.e.a.s. auglýsir verslanir sínar í útbreiddu dagblaði með trúlega litlum tilkostnaði og sér Fréttablaðinu fyrir fjármagni til að halda því gangandi," sagði Guðbjörg. Hún sagðist ekkert geta fullyrt um þá fjárhæð sem fyrirtæki í eigu Baugs borga fyrir auglýsingar í Fréttablaðinu en þykir líklegt að þau borgi verulega lægra verð en hjá öðrum dagblöðum.

"Fréttablaðinu er tryggt fjármagn svo lengi sem það tilheyrir samsteypu Baugs en hins vegar kunna ókostir þessa eignarhalds að vera þeir að blaðið fái mun minna fyrir hverja auglýsingu fyrirtækja Baugs en ef það tengdist ekki Baugi," segir Guðbjörg en hún telur að óneitanlega veki slík slagsíða í birtingum á auglýsingum upp þá tilgátu að Fréttablaðið bjóði systurfyrirtækjum sínum verulegan afslátt af auglýsingaverði sem önnur dagblöð geta ekki keppt við.

"Kjarni málsins er að hér á landi eru greinileg tengsl á milli eignarhalds og auglýsinga. Rannsókn þessi kallar á frekari rannsóknir á þessu sviði, t.d. nákvæmari mælingu á auglýsingamagninu og einnig væri athyglisvert að vita hvað fyrirtæki eru að borga fyrir auglýsingar sínar. Mikilvægt er að kanna annars vegar hver séu bein og óbein afskipti eigenda af fjölmiðlum sínum og hins vegar hvaða áhrif eigendur hafi á fjölmiðlana í gegnum auglýsingar fyrirtækja sinna," sagði Guðbjörg.