Fjárfestingasjóðurinn Barclays Private Equity, sem er í eigu Barclays Bank, hefur ákveðið að selja tískuvöruverslunarkeðjuna Phase Eight og er Baugur á meðal hugsanlegra kaupenda, samkvæmt heimildum breska dagblaðsins The Daily Telegraph.


Samvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Baugur að vinna að fjárfestingu í bresku tískuvörufyrirtæki, en fyrirtækið sem um ræðir er ekki Phase Eight.

Baugur hefur fjárfest verulega í tískuvöruverslunum í Bretlandi og fyrirtækið er reglulega orðað við keðjur sem ákveðið hefur verið að selja. Ekki náðist í talsmenn Baugs til að staðfesta áhuga félagsins á Phase Eight.

Barclays Private Equity vonast til að fá á bilinu 50-75 milljónir punda fyrir Phase Eight, samkvæmt upplýsingum The Daily Telegraph. Aðrir hugsanlegir kaupendur eru japanska merkjavörufyrirtækið Onward Kashiyama og eigendur breska hluta frönsku keðjunnar Kookai.