Baugur var enn á vörum fjárfesta í fjármálahverfi London í gær, stuttu eftir að fréttir bárust af því að fyrirtækið, ásamt örðum íslenskum fjárfestum, væri að undirbúa tilboð í bresku te- og kaffikeðjuna Whittard of Chelsea fyrir rúmlega tvo milljarða króna.

Orðrómur er um að félagið hafi verið að kaupa í smásöluverslunarkeðjunni Woolworths, en óvenju mikil viðskipti voru með bréf félagsins í kauphöllinni í London í gær. Talið er að Baugur eigi nú 2,99% hlut í Woolworths, sem er aðeins undir tilkynningarskyldu sem myndast við 3% eignarhlut.

Reiknað er með því að verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, sem er í eigu Landsbanka Íslands, hafi séð um að kaupa hluti í Woolworths fyrir Baug. Sérfræðingar benda á að Baugur hafi áhuga á að fjárfesta í undirverðlögðum félögum en að ekki sé líklegt að fyrirtækið reyni að taka yfir Woolworths þar sem Baugur hafi meiri áhuga á minni og sérhæfðum fyrirtækjum.

Gengi bréfa í Woolworths hækkaði um 1,25% í gær og var lokagengið 38 pens.