© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Þrotabú Baugs Group á eina eign sem eftir er að selja. Það er minnihlutaeign í breska tískufyrirtækinu Matthew Williamson. Baugur keypti 10% hlut í fyrirtækinu árið 2006. Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs Group, segir eignarhlutinn í Matthew Williamsson eina af þremur eignum þrotabúsins sem kröfuhafar áttu ekki veð í.

Fram kom í umfjöllun VB.is um stöðuna á þrotabúi Baugs Group í morgun að lýstar kröfur voru upphaflega 320 milljarðar króna. Þegar kröfu var lýst í þrotabúið frá félaginu BG Holding fóru kröfurnar yfir 400 milljarða. Síðustu kröfunni var hins vegar lýst of seint.

Föllnu bankarnir eru helstu kröfuhafar þrotabús Baugs Group. Landsbankinn er þeirra stærstur með um 100 milljarða kröfur. Kröfuhafar gengu fljótlega að veðum eftir að Baugur fór í þrot í mars 2009 og tóku yfir stærstu eignir félagsins. Þar á meðal eru eignarhlutir í bresku matvörukeðjunni Iceland Foods, leikfangaversluninni Hamleys og House of Fraser.