Breskir fjölmiðlar bendla Baug enn við bresku matvöruverslunarkeðjuna Wm Morrison. The Sunday Times segir í frétt að getgátur séu um það að fyrirtækið hafi verið að kaupa hlut í félaginu, en að hluturinn sé ekki það stór að vera tilkynningarskyldur.

Morrison hefur gengið illa að innlima Safeway-verslunarkeðjuna, en félagið keypti Safeway í fyrra, og hefur rekstur félagsins verið undir væntingum markaðarins.

Í grein Sunday Times segir að Baugur hafi sérhæft sig í að fjárfesta í undirverðlögðum smásölufélögum, en margir fjármálasérfræðingar benda á að Morrison sé undirverðlagt.

Bandaríska fjárfestingafélagið Brandes Investment Partners hefur séð kauptækifæri í Morrison og er félagið nú stærsti hluthafinn með 14% hlut, samkvæmt frétt Sunday Times. Annað fjárfestingafélag, Capital Group, hefur einnig verið að kaupa í félaginu og nemur eignarhluturinn nú 5,2%.