Baugur er sagður vera í yfirtökuviðræðum við bresku verslunarkeðjuna Moss Bros í breskum fjölmiðlum í dag.

Viðskiptablaðið greindi frá því á þriðjudaginn í síðustu viku að gengi hlutabréfa Moss Bros hefði hækkað og að hækkunina mætti rekja til orðróms um að Baugur hefði áhuga á að kaupa Moss Bros.

Breska blaðið The Daily Mail segir að Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, hafi átt fundi með stjórnarformanni Moss Bros, Keith Hamill, síðustu vikur.

Blaðið segir að Hamill vilji fá um 80 milljónir punda fyrir Moss Bros, en markaðsvirði fyrirtækisins, sem er skráð á hlutabréfamarkað í London, er um 69 milljónir punda.

Unity-fjárfestingasjóðurinn, sem er í eigu Baugs, FL Group og Kevin Stanford, heldur utan um 28,2% í Moss Bros, en auk þess á Stanford, sem stofnaði meðal annars Karen Millen-verslunarkeðjuna, sjálfur um 6,5%

The Daily Mail segir að Stanford hafi haft frumkvæðið að viðræðunum við Moss Bros.