Baugur greindi frá því í gær að félagið hefði keypt hluti Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar í Högum. Samtals kaupir Baugur 26,3% hlut og nemur nú hlutur félagins í Högum 95%. Talsmaður Baugs vildi ekki tjá sig um kaupverð né gefa upp ástæðu kaupanna.

Hagar eru nú næstum alfarið í eigu Baugs en Hagar, ásamt starfsmönnum, eiga þau 5% sem eftir standa. Kaupin miðast við 28. febrúar síðastliðinn. Pálmi og Jóhannes, sem báðir voru stjórnarmenn í Högum, hafa við þessi tímamót látið af stjórnarsetu í Högum. Baugur hefur ekki greint frá því hverjir munu taka sæti tvímenninganna í stjórn Haga.

Hagar eru einn stærsti smásöluaðili Íslands í mat- og sérvörum. Meðal verslana í eigu Haga eru Hagkaup, Bónus, Debenhams og Topshop. Félagið fellur undir smásölueiningu Baugs-samstæðunnar, sem stýrt er af Gunnari Sigurðssyni frá London. Forstjóri Haga er Finnur Árnason.