Nokkrum dögum eftir að ríkið tók Glitni yfir og fáum dögum áður en bankakerfið hrundi, nánar tiltekið hinn 3. október 2008, veitti Glitnir Baugi Group 1,4 milljarða króna peningamarkaðslán. Lánið var til tveggja vikna og bar 24% vexti á ári. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar til kröfulýsingar Glitnis í þrotabú Baugs. Að sögn blaðsins kemur ekki fram í kröfulýsingunni hvort um endurfjármögnun á eldra láni hafi verið að ræða. Krafa Glitnis í þrotabúið hljóðar upp á 1,5 milljarða króna vegna dráttarvaxta.

Glitnir lýsir alls 10 kröfum í þrotabú Baugs en ein þeirra hefur verið dregin til baka þar sem gengið hefur verið að veðum fyrir láninu.