Stjórn Baugs segir í yfirlýsingu að félagið hafi dregið til baka ósk sína um að Héraðsdómur Reykjavíkur veiti BG Holding ehf. greiðslustöðvun á Íslandi. Í yfirlýsingunni segir að það sé gert til að verja verslanir félagsins og til að lágmarka skaðann. Til stóð að taka beiðnina fyrir hjá héraðsdómi eftir hádegi í dag.

Haft er eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, í yfirlýsingunni að félagið hafi orðið fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun skilanefndar Landsbankans að fara fram á greiðslustöðvun BG Holding, dótturfélags Baugs, í Bretlandi.

Með hagsmuni eigna félagsins í huga muni Baugur þó ekki setja sig upp á móti þeirri ákvörðun. Þess í stað verði unnið með tilsjónaraðila til að verja eignirnar.

Breskur dómstóll féllst í morgun á ósk skilanefndarinnar um greiðslustöðvun. Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers í Bretlandi hefur verið skipaður tilsjónaraðili með eignum félagsins.