Baugur, FL Group og Kevin Stanford eru í sameiningu að vinna að stofnun fjárfestingafélags með fjárfestingagetu í kringum einn milljarð punda, sem samsvarar 139 milljörðum króna, segir í frétt breska dagblaðsins The Times.

Kevin Stanford er stofnandi Karen Millen-verslunarkeðjunnar, sem nú er hluti af Mosaic Fashions-samstæðunni, og FL Group hefur greint frá áhuga á að fjárfesta í smásöluverslun en sjóðurinn, sem mun heita Unity, verður sérhæfður smásölufjárfestingasjóður.

Unity-sjóðurinn mun halda utan um sameiginlega hluti stofnendanna í verslunarkeðjunni Woolworths og tískuvörukeðjunni French Connection (FCUK), segir The Times.

Baugur hefur keypt 10% hlut í Woolworths og 13% í FCUK, en heildareign Unity verður 13% í Woolworths og 20% í FCUK og heildarvirðið er í kringum 94 milljónir punda, sem samsvarar 13 milljörðum króna.

The Times segir að Baugur, FL Group og Kevin Stanford hafi fært eignarhluti sína í Marks & Spencer í sameiginlegt félag og að það hafi leitt til stofnunar Unity, en samanlagður söluhagnaður af eignarhlutunum í
Marks & Spencer nam um 50 milljónum punda, eða tæplega sjö milljörðum króna.

Ekki er talið að Unity muni taka þátt í hugsanlegri yfirtöku á House of Fraser og félagið mun einbeita sér að stöðutökum í skráðum félögum.