Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Baugs um áframhaldandi greiðslustöðvun. Þetta þýðir að Baugur verður að öllum líkindum tekinn til gjaldþrotaskipta.

Í úrskurði dómsins segir að ráðagerð Baugs, um að koma nýrri skipan á fjármál sín, sé ekki raunhæf. Þess vegna þjóni áframhaldandi greiðslustöðvun ekki tilgangi.

„Af gögnum málsins má ráða að skuldir sóknaraðila [Baugs] eru mjög háar og sjálfur heldur hann því fram að eignir hans hafi lækkað mikið síðustu misseri vegna ástands­ins á fjármálamörkuðum heimsins," segir í úrskurði dómsins.  Þá hafi dótturfélag sóknaraðila í Bretlandi verið tekið úr höndum hans og sett undir stjórn manna á vegum yfirvalda.

Með greiðslustöðvuninni hafi Baugur viljað bíða um sinn og verja eignir sínar í von um að úr muni rætast á fjár­mála­mörkuðum.  Þá hafi Baugur talið nauðsynlegt fyrir sig að hefja nauða­samn­ings­um­leitanir.

„Hvorugt þessara atriða er til þess fallið að koma nýrri skipan á fjármál sóknar­aðila, en í henni hlýtur að felast ráðagerð um að halda áfram starfsemi á nýjum grund­velli.  Hið fyrra felur í raun í sér að bíða eftir betri tíð án þess og nokkuð sé hægt að segja til um hvenær hennar sé að vænta," segir m.a. í úrskurðinum.

Úrskurðinn í heild má finna hér.