Baugur hefur fengið Rothschild bankann og bandaríska fjármálafyrirtækið Financo til að veita ráðgjöf vegna hugsanlegrar yfirtöku á Saks, að því er fram kemur í The Sunday Times í dag. Saks er lúxusvöruverslanakeðja sem meðal annars rekur vel þekkta verslun við Fimmta breiðstræti í New York.

Baugur tilkynnti í lok október að félagið mundi ef til vill bjóða í Saks í samstarfi við Landmark Group frá Dubai. The Sunday Times segir að ennfremur sé talið að Sir Tom Hunter, ríkasti maður Skotlands, sé að vinna með Baugi í málinu.

Samkvæmt heimildum breska blaðsins hefur engin ákvörðun verið tekin um tilboð í Saks og fram kemur að talið sé ólíklegt að nokkuð gerist fyrir jól. Talið er að yfirtökutilboð í Saks mundi vera á bilinu 3-4 milljarðar dala, jafnvirði um 180-240 milljarða króna.