B augur hefur sent frá sér yfirlýsingu og gagnrýnir umfjöllun danska götublaðsins Ekstra Bladet um félagið. Baugur segir umfjöllunina fulla af rangfærslum og að blaðið hafi neitað að birta leiðréttingar.

Danska blaðið hefur síðustu daga fjallað um útrás íslenskra fyrirtækja og bendlað íslensk fyrirtæki og athafnamenn við skattamisferli og peningaþvætti.

Íslensk fyrirtæki hafa fjárfest töluvert í Danmörku, sérstaklega Baugur, sem meðal annars hefur keypt dönsku stórverslanirnar Magasin du Nord og Illums.

“Baugur Group mótmælir harðlega þeim blaðagreinum sem blaðamenn danska Extrablaðsins hafa skrifað um fyrirtækið að undanförnu. Greinarnar eru fullar af villum,” segir Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, í tilkynningunni.

Baugur leiðréttir í tilkynningunni mistök Ekstra-blaðsins, en í grein blaðsins var Baugur sagður eigandi lággjaldaflugfélagsins Sterling . FL Group keypti Sterling af eignarhaldsfélaginu Fons fyrr á þessu ári fyrir 15 milljarða króna.

Einnig neitar Baugur tengslum við Rússann Mikhail Fridman, sem Ekstra-blaðið segir vafasamann. Fyrirtækið furðar sig á því að fréttnæmt sé að Mosaic Fashions, sem rekur rúmlega 1.700 verslanir víða um heim, hafi áhuga á að fjölga verslunum í Rússlandi.

Kaupþing banki gaf út verðmat á Mosaic Fashions, sem nýlega sameinaðist bresku verslunarkeðjunni Rubicon Retail, og mælir með kaupum í félaginu. Ein af ástæðum á hækkuðu verðmati Kaupþings er opnun nýrra verslana. Baugur á tæplega 37% í Mosaic Fashions og stóð fyrir skráningu félagsins í Kauphöll Íslands, ásamt Kaupþingi banka.

Ekstra-blaðið segir einnig að Baugur sé háður fjármagni frá Kaupþingi banka. Fyrirtækið segir það ekki rétt og að Baugur vinni með fjölda annarra banka víðs vegar um heim. Bank of Scotland er einn helsti samstarfaðili Baugs í Bretlandi.