Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, veitti í gær fyrirtækinu Baugur Group Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Jón Ásgeir Jóhannesson veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Baugur Group fékk verðlaunin fyrir hlutverk sitt í íslensku útrásinni, en fyrirtækið hefur á örfáum árum náð þeim árangri að verða þriðja stærsta smásölufyrirtæki á Norðurlöndum.

Einnig veitti forseti Íslands  Einari Benediktssyni sendiherra, dr. Rögnvaldi Ólafssyni og Björk Guðmundsdóttur heiðursviðurkenningu.

Útflutningsverðlaun forseta ÍSlands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslunar og gjaldeyrisöflunar íslensku þjóðarinnar. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði og fleiru.