Fjárfestar undir forystu Baugs Group hafa keypt MW Group Limited fyrir um 2,2 milljarða króna. Í tilkynningu Baugs kemur fram að markmiðið með kaupunum er að sameina fyrirtækið verslunum Goldsmiths.

Í tilkynningunni kemur fram að MW Group er í fremstu röð breskra smásölufyrirtækja á sviði vandaðra skartgripa og úra og var stofnað fyrir rúmlega 230 árum síðan. Keðjan rekur 32 verslanir í Bretlandi undi nöfnum Mappin & Webb og Watches of Switzerland. Mappin & Webb er eitt fárra fyrirtækja sem hefur hemild til að nota skjaldamerki Elísabetar drottningar og Karls Bretaprins í viðskiptum vegna hlutverks síns sem silfursmiðir hirðarinnar. Samtals reka Goldsmiths og MW Group á þriðja hundrað verslana og heildarársvelta fyrirtækjanna verður um 29 milljarðar króna.

Meðal fjárfestanna má nefna Jurek Piasecki forstjóra Goldsmiths ásamt Landsbanka Íslands hf., Straum-Burðarás fjárfestingabanka og Fons.

MW Group mun fyrst um sinn halda áfram að starfa sjálfstætt undir stjórn forstjórans Nick Evans. Í tilkynningu Baugs kemur fram að félagið fellur vel að rekstri Goldsmiths, lítil skörun er á staðsetningu verslana fyrirtækjanna og talsverðir möguleikar til hagræðingar og vaxtar. Vörumerkin þrjú, Goldsmiths, Mappin&Webb og Watches of Switzerland skapa sameinuðu félagi sterka stöðu á breskum markaði.

Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Baugs Group í Bretlandi sagði í tilefni kaupanna: "Mappin & Webb er afbragðsgott nafn og hefur á sér mjög gott orð. Því lítum við á kaupin á fyrirtækinu sem mikilvægt tækifæri til þess að styrkja stöðu Goldsmiths á markaði með vönduðum skartgripum og úrum. Þetta er ásamt Mosaic Fashions gott dæmi um hvernig við byggjum upp fyrirtæki okkar. Við keyptum Goldsmiths í fyrra og með kaupunum á Mappin & Webb styrkjum við fyrirtækið enn frekar til aukins vaxtar."

Jurek Piasecki forstjóri Goldsmiths sagði við sama tækifæri: "Þessi mikilvægu kaup veita bæði Goldsmiths og Mappin & Webb einstakt tækifæri til þess að standa saman að því að skapa fremsta smásölufyrirtæki Bretlands á sviði lúxusskartgripa og úra. Það sem gerði gæfumuninn var hversu mikils menn meta reynslu Baugs á sviði smásölu og að Baugur hefur sýnt að öfugt við marga breska fjárfesta er félagið tilbúð að líta til lengri tíma við uppbyggingu fjárfestinga sinna."

Nick Evans forstjóri Mappin & Webb hafði eftirfarandi að segja: "Við gleðjumst mjög yfir þessum viðskiptum sem að okkar mati styrkja bæði fyrirtækin. Við leggjum nú aðaláherslu á jólamarkaðinn áður en farið verður að huga að samrunanum við Goldsmiths."

"Það er okkur mikið ánægjuefni að M&W Group sé nú komið í eigu Goldsmiths sem við höfum átt góð og langvinn viðskipti við á undanförnum árum. Það er okkur tilhlökkunarefni að halda áfram að þróa samband okkar og viðskipti," sagði Arnaud Bamberger forstjóri Cartier UK.

Franz La Rosee framkvæmdastjóri Breitling UK Ltd. sagði: "Við höfum verið birgjar bæði Goldsmiths Group og MW Group um margra ára skeið og erum sannfærðir um að þessi kaup muni bæði stuðla að auknum stöðugleika á úra- og skartgripamarkaðinum í heild sinni og styrkja sérstök tengsl Breitlings við hið nýja og öfluga fyrirtæki Goldsmiths Group."

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands sá um ráðgjöf í viðskiptunum.. Fjármögnun var í höndum Landsbanka Íslands hf., og var að mestu í formi birgðafjármögnunar frá nýstofnuðu sviði eignatryggðrar fjármögnar .