Baugur Group hefur aukið hlut sinn í Dagsbrún úr 34,55% í 36,26%, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Yfirtökuskylda myndast við 40% eignarhlut og nálgast eignarhlutur Baugs Group í Dagsbrún nú yfirtökuþröskuldinn.

Fyrr í dag var tilkynnt í Kauphöllinni um að Klapparás, félag í eigu Árna Haukssonar stjórnarmanns í Dagsbrún, hafi selt jafnmarga hluti og Baugur Group hefur keypt.

Það kemur ekki fram í tilkynningu Baugs Group á hvaða verði hlutirnir eru keyptir en í tilkynningu um sölu á hlut Klapparáss í Dagsbrún segir að viðskiptin hafi farið fram á genginu 6,72 krónu á hlut.

Andvirði viðskiptanna er því 575,6 milljónir króna. Baugur Group keypti 85.659.813 hluti og eftir viðskiptin á Baugur Group 1.823.492.909 hluti í Dagsbrún.