Á stjórnarfundi Baugs Group hf. sl föstudaginn var samþykkt að verja 300 milljónum. kr. á þessu ári til stofnunar sérstaks styrktarsjóðs, en sjóðnum er ætlað það hlutverk að styðja margvísleg líknar- og velferðarmál barna auk menningar og listalífs. Framlög úr sjóðnum verða veitt samkvæmt umsóknum. Áhersla verður lögð á stuðning við stofnanir, samtök og félög, sem starfa að framangreindum málefnum hér heima og erlendis.

Formaður stjórnar sjóðsins verður Jóhannes Jónsson en auk hans sitja Hreinn Loftsson og Ingibjörg Pálmadóttir í stjórn sjóðsins.

Unnið er að formlegri stofnun og skráningu sjóðsins, en sjóðnum er ætlað að taka yfir styrktarstarfsemi fyrirtækisins, sem hefur verið veruleg á undanförnum árum. Baugur Group hf. hefur verið helsti styrktaraðili UNICEF á Íslandi.

Gera má ráð fyrir að heildarframlög sjóðsins verði um 40-60 milljónir kr. á ári.