Baugur Group hefur selt mikið af eignum frá sér á síðustu mánuðum og efnahagsreikningur félagsins hefur minnkað um einn þriðja frá áramótum í um 200 milljarða íslenskra króna. Baugur Group hagnaðist um meira en hálfan milljarð danskra króna í fyrra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í opnuúttekt Børsen í dag þar sem er m.a. er rætt við Gunnar Sigurðsson, forstjóra Baugs Group.

Hann segir við Børsen að í fyrrasumar hafi um 60% af eignum Baugs verið í óskráðum félögum og 40% í skráðum félögum en að nú sé hlutfallið 80% á móti 20%.

„Í lok síðasta árs hófum við að minnka stöðu okkar á hlutabréfamarkaðinum,” segir Gunnar m.a. við Børsen.

„Við höfum í grófum dráttum gert það sem við þurftum að gera og efnahagsreikningur okkar er aftur orðinn sterkur. Við horfum stöðugt á eignasöfn okkar en þetta er vondur markaður að selja á núna.”

Gunnar upplýsir að afkoma Baugs hafi verið mjög góð á fyrri hluta síðasta árs en seinni helmingurinn hafi verið mun verri, fyrst og fremst vegna lækkunar á skráðum hlutabréfum í eigu Baugs.

„Hagnaðurinn fyrir árið 2007 var aðeins minni en árið 2006 – nálægt 10 milljörðum íslenskra króna eftir skatta,” segir Gunnar.

_____________________________________

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .