LXB II, fasteignafélag í eigu Baugs, Bank og Scotland og skoska auðkýfingsins Sir Tom Hunter, hefur selt hluta eignasafns síns að virði 425 milljónir punda, sem samsvarar rúmlega 56 milljörðum króna, til breska fasteignafyrirtækisins Hammerson, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hunter og skoski bankinn eru einnig að vinna með Baugi að yfirtökunni á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, staðfesti sölu fasteignanna í samtali við Viðskiptablaðið í gær en talið er að heildarhagnaður hlutahafa af viðskiptunum sé á annan tug milljarða íslenskra króna á rúmu ári. Baugur á um 20% hlut í LXB og má því leiða líkur að því að hagnaður félagsins nemi nálægt fjórum milljörðum króna.

Fasteignasjóðurinn LXB I, sem einnig var í eigu sömu aðila, seldi eignasafn sitt til breska fasteignafélagsins Land Securities í fyrra fyrir um 360 milljónir punda, eða um 48 milljarða króna, og var LXB II-sjóðurinn stofnaður í kjölfarið. Gunnar sagði Baug vera ánægðan með árangurinn og samstarfið við Bank of Scotland og Hunter og að ekki væri ósennilegt að samstafinu verði haldið áfram á fasteignamarkaði í Bretlandi.

Líklegt er að hópur fjárfesta, sem leiddur er af Baugi, muni gera formlegt kauptilboð í bresku stóverslunarkeðjuna House of Fraser í vikunni að virði 350 milljónir punda, eða 148 pens á hlut, sem samsvarar 46 milljörðum króna.

Baugur hefur sett saman hóp fjárfesta til að taka þátt í kaupunum, sem meðal annars inniheldur FL Group, Sir Tom Hunter, Kevin Stanford og Bank of Scotland.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu Bank of Scotalnd og Glitnir fjármagna yfirtökuna en ráðgjöf veita Glitnir og fjárfestingabankinn Rothschilds.