Baugur hefur áhuga á að opna verslanir á Indlandi, samkvæmt frétt í breska viðskiptablaðinu Financial Times, en félagið hefur keypt fjölda tískuvöruverslana í Bretlandi og í Danmörku á síðustu árum.

Í frétt FT segir að Baugur hafi keypt töluvert af millistórum tískufyrirtækjum í Bretlandi síðustu fjögur ár og markmiðið sé að flytja vörumerki félagsins út til annarra landa.

Fyrirtækið hefur þegar opnað Hamleys-verslanir í Danmörku, auk þess að opna Jane Norman-verslanir þar. Einnig hefur Baugur opnað Karen Millen-verslanir í Bandaríkjunum, en móðurfélag Karen Millen er Mosaic Fashions sem skráð er í Kauphöll Íslands.

FT segir að Tesco-verslunarkeðjan hafi einnig skoðað möguleika á að opna verslanir á Indlandi.