Baugur náði samkomulagi við stjórnarmeðlimi lífeyrissjóðs House of Fraser um helgina, en sjóðurinn var rekinn með 9,6 milljarða halla. Úrlausn málsins greiðir því leið fyrir yfirtökuboð Baugs í fyrirtækið í vikunni, segir í frétt The Business.

Áreiðanleikakönnun hefur staðið yfir síðastliðnar tíu vikur á House of Fraser, en Baugur hyggst bjóða 148 pens á hlut í fyrirtækið, segir í fréttinni. Baugur á þegar 9,5% hlut í fyrirtækinu.

?Halli lífeyrissjóðsins er ekki lengur vandamál, það hefur verið leyst," sagði heimildarmaður The Business.

Fyrrum forstjóri Rubicon, Don McCarthy hefur verið nefndur sem formaður fyrirtækisins ef af yfirtökunni verður.

Núverandi forstjóri House of Fraser kemur til með að hagnast um rúmlega 800 milljónir á yfirtökunni, en það gerist þrátt fyrir að gengi hlutabréfa fyrirtækisins hafi hríðfallið síðan hann tók við stjórn þess, segir í fréttinni.