Baugur mun að öllum líkindum hætta við að bjóða í bresku matvöruverslunarkeðjuna Somerfield vegna Baugsmálsins, samkvæmt upplýsingum Dow Jones fréttaskrifstofunnar.

Ríkislögreglustjóri hefur ákært sex einstaklinga vegna meintra auðgunarbrota í Baugsmálinu. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, Krístín Jóhannesdóttir, Jóhannes Jónsson, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, og tveir endurskoðendur hafa verið ákærðir.

Heimildamaður Dow Jones segir að Baugur hafi boðist til þess að draga sig út úr hópnum vegna ákærunnar og að því tilboði verði líklega tekið á mánudaginn. Hópurinn samanstendur af fjárfestingasjóðnum Apax, breska bankanum Barclays, fasteignajöfrinum Robert Tchenguiz og Baugi. Talið er að ákæran muni stefna tilboðinu í hættu og þess vegna hafi Baugur boðist til þess að hætta við.

Áreiðanleikakönnun á Somerfield er lokið og er búist við að bindandi tilboð í félagið séu væntanleg á næstu dögum. Óbindandi tilboð hópsins hljóðar upp á 205 pens á hlut, eða um 1,1 milljarð punda. Einnig hefur fasteignafélagið London & Regional Properties, sem er í eigu Ian og Robert Livingstone, skilað inn óbindandi tilboði í Somerfield. Breska matvöruverslunarfyrirtækið Untited Co-op tilkynnti í síðustu viku að félagið myndi ekki senda inn bindandi tilboð í Somerfield. Somerfield mun birta tólf mánaða uppgjör á miðvikudaginn.

Fyrst Arcadia ? nú Somerfield
Þetta er í annað sinn sem Baugsmálið truflar yfirtökuáætlanir Baugs. Baugur segir aðgerðir Ríkislögreglustjóra hafa leitt til þess að áætlanir fyrirtækins um að taka þátt í kaupunum á breska tískuvörufyrirtækinu Arcadia árið 2002 hafi mistekist.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins í London segja að Royal Bank of Scotland, sem hafi verið tilbúinn til þess að fjámagna kaupin á Arcadia með Baugi, hafi hætt við vegna málsins. Arcadia var síðan keypt af breska fjármálamanninum Philip Green, með aðstoð Bank of Scotland.

Bæði Royal Bank of Scotland og Bank of Scotland hafa átt í viðræðum við Baugshópinn um að fjármagna yfirtökuna á Somerfield og er talið að bankarnir séu varir um sig vegna ákærunnar.

Ríkislögreglustjóri hefur ekki opinberað ákæruna á hendur einstaklingum sex. Í tilkynningu frá Skrifstofu ríkislögreglustjóra segir að ákæran sé ?í 40 ákæruliðum og fjallar um ætluð brot ákærðu gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög og tollalögum."

Málsrannsóknin hófst fyrir um þremur árum þegar Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, lagði fram ákæru á hendur Baugsmönnum.

Í tilkynningu Baugs á föstudaginn segir að rannsóknin hafi verið dregin á langinn og að hún hafa látin taka til fleiri atriða, ?sem eru alls óskyld upphaflegum ásökunum Jóns Geralds Sullengergers."

Fyrirtækið segir rannsóknina hafa miðast af því að ?finna réttlætingu fyrir harkalegum aðgerðum í upphafi, haustið 2002." Rannsóknin hófst með húsleit í kjölfar ákæru Jóns Geralds Sullenbergers.

Héraðsdómur Reykjavíkur móttók ákæruna þann 1. júlí. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. ágúst n.k.