*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 1. febrúar 2006 12:24

Baugur í viðræðum um að kaupa hlut í Leonard

Ritstjórn

Baugur Group á í viðræðum við eigendur íslensku skartgripaverslunarinnar Leonard um hugsanlegt samstarf og stendur til að Baugur eignist um 50% hlut í félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Talið er að kaupverð hlutarins sé í kringum 50 milljónir króna.

Baugur hefur fjárfest í bresku skartgripaverslunarkeðjunum Goldsmiths og Mappin & Webb og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að félagið sjái tækifæri og samlegðaráhrif í samstarfi við eigendur Leonard.

Baugur leiddi yfirtökuna á Mappin & Webb síðasta haust og nam kaupverðið um 2,2 milljörðum króna. Félagið hyggst sameina Mappin & Webb bresku skartgripakeðjunni Goldsmiths, sem Baugur átti þátt í að kaupa fyrir tæpa 15 milljarða árið 2004 á þáverandi gengi. Meðal fjárfestanna, sem keyptu Mappin & Webb, má nefna Jurek Piasecki, forstjóra Goldsmiths, ásamt Landsbanka Íslands Straumi-Burðarási fjárfestingabanka og eignarhaldsfélagið Fons.

Bæði Goldsmiths og Mappin & Webb reka fríhafnarverslanir, og eru stærstu skartgripaseljendurnir á Heathrow-flugvelli í London. Leonard rekur verslun í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, ásamt því að reka verslun í Kringlunni. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að tækifæri liggi í að útvíkka fríhafnarverslun Leonard erlendis, ásamt því að félagið getur lækkað innkaupaverð og náð betri samningum við birgja með samstarfi við félög í eigu Baugs.

Sævar Jónsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, stofnaði verslunina Leonard árið 1991. Fyrstu árin var hún í Borgarkringlunni en var opnuð í Kringlunni árið 1995. Verslunin var opnuð á nýjum stað í Kringlunni árið1999. Árið 1998 var verslunin opnuð í fríhöfn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Starfsmenn Leonard eru nú um tuttugu talsins.