Stephen Marks stofnandi og stjórnarformaður French Connection hefur staðfest að Baugur hafi eignast 1,5% hlut í fyrirtækinu. "Ég veit ekki hverjar fyrirætlanir Baugs eru," sagði Marks á blaðamannafundi, en hann stofnaði fyrirtækið árið 1969 og á 42% hlut í því. "Maður hefði haldið að þeir myndu hringja í mig, en þeir hafa ekki gert það."

Meginefni fundarins voru hins vegar vondar sölutölur fyrir fyrstu 5 vikur
fjárhagsársins. Salan minnkaði um 17%. Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf í
fyrirtækinu umtalsvert. Marks sagðist hins vegar hafa fulla trú á að vor- og
sumarfatnaður verslunarinnar myndi seljast vel. Hann aftók með öllu að hann hefði í hyggju að afskrá félagið. Hann viðurkenndi að nýju sölutölurnar væru "ferlegar" en hann hefði fulla trú á fyrirtækinu. "Það kemur í ljós á næstu tveimur mánuðum hvort við höfum eitthvað vit á því sem við erum að gera," sagði Marks.

Vefur Daily Telegraph greindi frá