Baugur Group hefur ákveðið að hætta þáttöku í hugsanlegri yfirtöku bresku matvöruverslunarkeðjunar Somerfield, segir í tilkynningu frá félaginu.

Fyrirtækið hefur verið í hópi fjárfesta, sem inniheldur breska bankann Barclays, Robert Tchenguiz og fjárfestingasjóðinn Apax, og hefur átt í viðræðum við Somerfield varðandi hugsanlegt tilboð í félagið.

"Ákvörðunin var tekin í þágu fyrirtækjahópsins, aðila hans og hluthafa Somerfield í kjölfar þess að ákærur hafa verið birtar forstjóra Baugs og fimm öðrum einstaklingum. Baugur stendur heilshugar að baki þessum einstaklingum, sem hafa staðfastlega haldið fram sakleysi sínu, segir í tilkynningunni.

"Í ljósi þessara ásakana teljum við að hið eina rétta í stöðunni sé að hætta við þátttöku, þrátt fyrir að einstaklingarnir sem um ræðir neiti sök í málinu. Mikilvægt er að árétta að Baugur er brotaþoli í þessu máli, að rannsóknin hefur ekki snúið að fyrirtækinu og engar ákærur hafa verið gefnar út á hendur því," segir Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs.

Samkvæmt tilkynningu Baugs hefur félagið og fyrirtækjahópurinn samið um að Baugur selji öll hlutabréf sín í Somerfield fyrir 190 pens á hvern hlut til félags undir stjórn Tchenguiz Family Trust. Ef fyrirtækjahópurinn lýkur yfirtöku á Somerfield mun hann endurgreiða Baugi kostnað sem fallið hefur á félagið vegna vinnu við undirbúning hugsanlegrar yfirtöku á fyrirtækinu.

Barclays, Tchenguiz og Apax hafa sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram, að hópurinn geri sér grein fyrir því að Baugur taki þessa ákvörðun til að valda fyrirtækjahópnum, einstökum fyrirtækjum í honum hluthöfum Somerfield sem minnstum skaða. Virði fyrirtækjahópurinn fagmennsku og heilindi Baugs í þessari óheppilegu stöðu.

Þar segir einnig að á undanförnum mánuðum hafi fyrirtækin unnið náið með Baugi sem hafi lagt að mörkum mikilvægt framlag. Eftir að Baugur hafi dregið sig til baka muni þau fyrirtæki sem eftir eru vinna áfram að hugsanlegu tilboði í Somerfield. Hins vegar sé ekki öruggt að slíkt tilboð komi fram.