Ákærur í Baugsmálinu verða þingfestar í dag, en breska blaðið The Guardian fékk fyrst fjölmiðla aðgang að þeim. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Baugur muni halda sínu striki í Bretlandi. "Fyrir utan Sommerfield-viðskiptin hefur málið ekki haft bein áhrif í Bretlandi," segir Gunnar. Búist er við niðurstöðu í Somerfield kapphlaupinu í lok mánaðar, en Apax, Barclays-bankinn og breski auðjöfurinn Robert Tchenguiz slást við Livingstone-bræður um að taka yfir félagið fyrir um milljarð punda.

Gunnar segist ánægður með þá umfjöllun sem málið hefur fengið í breskum fjölmiðlum og að félaginu hafi ekki orðið meint af enn sem komið er. Hann segir Baugsmálið ekki hafa haft áhrif á samstarf við núverandi viðskiptaaðila og að fyrirtækið muni nú einbeita sér að rekstri félaga þegar í eigu Baugs. Gunnar segir fyrirtækið þó halda áfram að leita eftir tækifærum í Bretlandi.

Fyrirtækið hefur fjárfest í 12 félögum í Bretlandi síðustu þrjú ár, nú síðast í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni Jane Norman og Woodward Foodservice, og segir Gunnar vel hafa tekist til þrátt fyrir að rannsókn á meintum auðgunabrotum núverandi og fyrrverandi stjórnenda Baugs hafi staðið yfir. Hann segir þó að félagið sé ekki að vinna í stórum verkefnum þessa stundina og ekki hafi reynt á hvernig það muni takast til í nánustu framtíð.