Breska blaðið The Independent segir Baug bíða á hliðarlínunni ef væntanlegt kauptilboð stjórnarformanns breska súkkulaðiframleiðandans Thorntons fer út um þúfur.

Blaðið segir Christopher Burnett, stjórnarformann Thorntons hafa verið að undirbúa kauptilboð að virði 124 milljónir punda (13,45 milljarðar íslenskra króna) í félagið en að viðræður hafi strandað vegna þess að lífeyrisskuldbindingar félagins eru í óreiðu.

Í fréttinni segir að Brunett sé að athuga hvort lækka eigi kauptilboðið vegna lífeyrisskuldbindinganna, en að það geti orðið til þess að honum takist ekki að kaupa og afskrá félagið, sem er skráð í kauphöllina í London.

Jólaverslun Thorntons var undir væntingum og það gæti einnig haft áhrif til lækkunar á kaupverðinu, segir í frétt The Independent.