Baugur hefur sent frá sér tilkynningu til staðfestingar á yfirtökuviðræðum hóps fjárfesta um að kaupa allt hlutafé bresku stórverslunarkeðjunnar House of Fraser fyrir 148 pens á hlut, sem samsvarar um 46 milljörðum króna.

Fjárfestahópurinn, sem leiddur er af Baugi, inniheldur einnig FL Group, skoska auðkýfinginn Sir Tom Hunter, Kevin Stanford, Bank of Scotland, Don McCarthy og Stefan Cassar, segir í tilkynningunni.

Samvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er áætlað að gera formlegt kauptilboð í House of Fraser fyrir vikulok, en tilboðið er fjármagnað að hluta til af Bank of Scotland og Glitni. Glitnir, ásamt fjárfestingabankanum Rothschild, veitir einnig ráðgjöf.