Viðskiptablaðið hefur eftir áreiðanlegum heimildum að Baugur og Talden Holding, eigendur breska félagsins Woodward Foodservice, eigi í viðræðum um kaup á keppinautinum Brakes. Blaðið vitnaði í frétt breska sunnudagsblaðsins The Observer í gær, sem sagði Baug hafa áhuga á að kaupa Brakes fyrir 1,2 milljarða punda, eða sem samsvarar 157 milljörðum króna.

Talden Holding er félag í eigu fjárfestingafélagsins Fons, sem stýrt er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, en Baugur, Talden og stjórnendur Woodward keyptu félagið af Giant Bidco árið 2005. Giant Bidco var stofnað til að kaupa og afskrá The Big Food Group, sem einnig átti Iceland-verslunarkeðjuna.

Woodward Foodservice keypti keppinautinn DBC Foodservice í september síðastliðnum og var velta sameinaðs félags um 500 milljónir punda. Kaupin voru fjármögnuð af breska bankanum Lloyds TSB og Landsbanka Íslands.