Baugur Group og meðfjárfestar hafa lokið kaupum á bandarísku fréttaveitunni NewsEdge af kanadíska upplýsingafyrirtækinu The Thomson Corporation. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Baugi Group. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Starfsemi NewsEdge verður sameinuð frétta- og tæknifyrirtækinu Acquire Media, sem er
staðsett í New Jersey-fylki í Bandaríkjunum. Sameinuðu fyrirtæki verður stýrt af núverandi stjórnendateymi Acquire Media. Thomas Naysmith, fyrrverandi framkvæmdastjóri frétta- og upplýsingafyrirtækisins M2 Communications, verður framkvæmdastjóri alþjóðadeildar í hinu sameinaða félagi.

Stefnt er að bæta verulega þjónustu við núverandi viðskiptavini NewsEdge og mun fyrirtækið varðveita starfsemi þess í Massachusetts-fylki og í London. Höfuðstöðvar nýja fyrirtækisins verða staðsettar í New Jersey. Fyrirtækið sérhæfir sig í miðlun fjármálafrétta- og upplýsinga til stórfyrirtækja, banka og annarra fjármálastofnanna.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir að Baugur hafi verið virkur fjárfestir í
fjölmiðlum í mörg ár. ?Kaupin á NewsEdge opna nýja vídd á því sviði og sameiningin við
Acquire Media skapar spennandi tækifæri í Bandaríkjunum, í samvinnu við sterkt
stjórnendateymi.?

Gunnar Jóhann Birgisson og Gunnlaugur Árnason, fjárfestingastjóri hjá Media & New
Ventures sviði Baugs Group, munu taka sæti í stjórn félagsins, og verður Gunnar Jóhann stjórnarformaður, segir í tilkynningunni.