Þau óvæntu tíðindi hafa orðið að Baugur og Tchenguiz Group hafa ákveðið að sameinast um tilboð í Somerfield verslunarkeðjuna. Tilboðsgjafar eru því ekki lengur þrír heldur tveir. Hinir eru Livingstone-bræður, sem eru fasteignajöfrar líkt og Tchenguiz-bræður. Þetta var tilkynnt í dag.
Fleiri eiga aðild að tilboði Baugs og Thenguiz Group, meðal annars Barclays Capital.
Báðir hóparnir fara nú í gegnum gögn frá Somerfield áður en endanlegt tilboð verður gert.
Reuters fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sem stendur nálægt ferlinu að hóparnir tveir standi nokkurn veginn jafnfætis og ómögulegt sé að segja til um það á þessu stigi hvor hljóti hnossið.
Fréttaveitan Newratings hefur eftir sérfræðingi hjá Teather & Greenwood að við þessi tíðindi lækki líklega kaupverðið og verði nær 200 pensum á hlut, en áður höfðu verið nefndar tölur allt að 240 pensum.
Bloomberg hefur eftir sérfræðingi hjá Planet Retail að kaupverðið verði líklega fáeinum pensum yfir fyrra tilboði Baugs sem hljóðaði upp á 190 pens á hlut.
Gengi bréfa í Somerfield lækkaði um 2,9% við tíðindin í dag, sem er mesta lækkun sem orðið hefur frá því í október.