Forsvarsmenn verslana Jane Norman hafa tilkynnt fyrirætlanir um að opna fjórar Jane Norman verslanir í Rússlandi á næsta ári. Þeir bættu við, að hugsanlega gætu þær orðið sex Jane Norman verslanirnar í Moskvu einni, þegar fram líða stundir.

Þetta kemur fram á vef Baugs. Jane Norman er í 35% eigu Baugs og 35% eigu Kaupþings.

Þar kemur fram að Jane Norman verslanakeðjan rekur um 100 verslanir víðs vegar í Bretlandi og hefur um skeið leitað út fyrir landsteinana til að auka vöxtinn enn frekar. Þegar rekur fyrirtækið 100 verslanir í Þýskalandi, á Kýpur, í Hollandi, Belgíu og á Norðurlöndunum. Þess má geta að 200. verslun keðjunnar var opnuð nú í sumar í Köln í Þýskalandi.

Einnig kemur fram á vef Baugs að auk þess að færa sig til Rússlands er fyrirhugað að færa út kvíarnar enn frekar á Norðurlöndunum og verða opnaðar fjórar nýjar verslanir í Svíþjóð, tvær í Danmörku og fjórar í Noregi. Þá eru einnig uppi fyrirætlanir um að opna 30 verslanir í Mið-Austurlöndum á næstu fjórum árum.

„Við erum ekki í nokkrum vafa um, að Jane Norman vörumerkið á eftir að slá í gegn í Rússlandi ,” segir Saj Shah, forstjóri Jane Norman, í samtali við vikuritið Retail Week.

„Karen Millen vörumerkið er afar vinsælt í Rússlandi, ef ekki það vinsælasta, og Jane Norman á eftir að verða það líka.”