Heildarmarkaðsvirði félaga sem Baugur hefur verið orðaður við í Bretlandi að undanförnu er um 870 milljarðar króna. Til samanburðar var verg landsframleiðsla á Íslandi 996 milljarðar króna í fyrra.

Baugur er, ásamt Tom Hunter, í hópi fjárfesta sem gert hafa tilboð í garðyrkjuverslunarfyrirtækið Wyevale Garden Centers fyrir 42,6 milljarða króna. Fallist hefur verið á yfirtökuna og mun Bank of Scotland aðstoða við fjármögnun.

Þá reikna sérfræðingar á breskum fjármálamarkaði með því að Baugur þurfi að greiða 353 milljónir punda, eða rúmlega 48 milljarða króna, ef félagið ætlar sér að taka yfir bresku stórvöruverslunarkeðjuna House of Fraser. Það samsvarar 150 pensum á hlut. Baugur keypti nýverið 9,5% hlut í House of Fraser fyrir um 3,8 milljarða og stuttu síðar greindi breska félagið frá því að þriðji aðili hefði lagt fram óformlegt kauptilboð. Hvorki Baugur né House of Fraser hafa tjáð sig um hver standi að baki tilboðinu, en flestir reikna með því að aðilinn sem um ræðir sé Baugur.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja Baug hafa haft samband við House of Fraser en benda á að það sé alls ekki víst að kauptiboð verði gert í félagið. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann. Bresku blöðin The Business og The Daily Mail fullyrða að Baugur eigi í viðræðum við House of Fraser.

Markaðsvirði Wm Morrison 677 milljarðar

Breskir fjölmiðlar bendla Baug enn við bresku matvöruverslunarkeðjuna Wm Morrison. The Sunday Times segir í frétt að getgátur séu um það að fyrirtækið hafi verið að kaupa hlut í félaginu, en að hluturinn sé ekki það stór að vera tilkynningarskyldur. Markaðsvirði Wm Morrison nemur 677 milljörðum króna, eða tæplega fimm milljörðum punda. Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja að Baugur hafi ekki keypt hlut í félaginu og að yfirtaka sé ekki í spilunum.

Þá á Baugur 13,7% hlut í bresku tískuverslunarkeðjunni French Connection, en FL Group hefur að auki keypt 5,08% í keðjunni fyrir 1,4 milljarða króna. Markaðsvirði French Connection er 27 milljarðar króna.

Baugur hefur einnig verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni Woolworths, en félagið á um 10% hlut í félaginu. Markaðsvirði Woolworths er um 65 milljarðar króna. Baugur var orðaður við hugsanlega yfirtöku á Woolworths í fyrra, en heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Baugur hafi ekki áhuga á að taka félagið yfir að svo stöddu.

Baugur hefur áhuga á að fjárfesta í breska súkkulaðiframleiðandanum Thorntons, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Thorntons hafnaði á dögunum kauptiboði í félagið og hefur Baugur fylgst náið með gangi mála. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Baugur sjá samlegð með heilsuvöruverslunarkeðjunni Julian Graves, te- og kaffiverslunarkeðjunni Whittard og Thorntons. Markaðsvirði Thorntons er rúmlega 11 milljarðar króna.