Miklar hreyfingar hafa verið á bréfum íþróttaverslanakeðjunnar Sports Direct undanfarna daga og félagið hefur hækkað um 10% í þessari viku einni, og um 30% frá því í upphafi októbermánaðar. Mikið hefur verið að gerast hjá Sports Direct nú á haustmánuðum. Sports Direct eignaðist 15% í íþróttaframleiðandanum Umbro um miðjan október en á sama tíma kom Baugur inn í hluthafahópinn og keypti 1% í félaginu. Þá hefur stjórnarformaður Sports Direct, Mike Ashley, sem jafnframt er einn stærsti hluthafinn með 65% verið að bæta við sig í félaginu. Þessar hræringar hafa komið af stað ýmsum kvittum og vangaveltum um framtíð Sports Direct. Breskir fjölmiðlar fjalla meðal annars um orðróm þess efnis að Baugur vilji bæta við sig í íþróttaverslanakeðjunni. Einnig er fjallað um hvort Mike Ashley hafi í hyggju að afskrá félagið. Nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu.