Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að breska stórvöruverslunin House of Fraser eigi í yfirtökuviðræðum við þriðja aðila og talið er líklegt að Baugur hafi gert kauptilboð í félagið.

Baugur keypti 9,5% hlut í fyrirtækinu í apríl fyrir 28 milljónir punda, eða 3,8 milljarða króna.

Fyrirtækið átti 10,1% hlut í House of Fraser, sem félagið seldi árið 2004 og nam söluhagnaður félagsins rúmlega 1,3 milljörðum króna á þáverandi gengi. Kaupverð eignarhlutarins var í kringum tveir milljarðar á sínum tíma en Baugur seldi hlutinn fyrir um 3,4 milljarða króna.

Breski fjárfestingasjóðurinn Apax átti í viðræðum við House of Fraser um að kaupa félagið og afskrá það fyrr á þessu ári. En Apax ákvað að hætta við yfirtökuna og gera ekki formlegt kauptilboð í verslunarkeðjuna. Ekki er talið að Apax hafi gert aðra tilraun til að kaupa House of Fraser.

Baugur hefur einnig verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni Woolworths, en félagið á um 10% hlut í félaginu, og tók nýlega þátt í kauptilboði skoska auðkýfingsins Tom Hunter í breska blómarisann Wyvale Garden Centres, sem hljóðar upp á 311 milljónir punda, eða um 44 milljarða króna.